Skrá mig inn

Flutningur í eigið herbergi, hvenær og hvernig?

May 01, 2024

Hefurðu velt því fyrir þér hvenær rétti tíminn er til þess að færa barnið í sitt eigið herbergi?

 

Ef við spáum í því út frá öruggu svefnumhverfi þá mælir American Academy of Pediatrics (AAP) með því að barnið sé í herbergi foreldra, á eigin svefnstað fyrstu 6 mánuði ævinnar. Það virðist vera verndandi gegn vöggudauða (e. Sudden Infant Death Syndrome, SIDS) að deila herbergi með foreldrum fyrstu mánuðina. Mesta hættan á vöggudauða er frá 1-4 mánaða aldurs, en eftir 6 mánaða aldur er 90% hættan liðin hjá, þá er talið öruggt að flytja barnið í sitt eigið herbergi.

Ef við spáum í þessu út frá svefninum, þá sýndi rannsókn frá árinu 2017 fram á að börn frá 4 mánaða aldri sofi betur í eigin herbergi, bæði til skamms og langs tíma litið. Börn sem voru flutt við 4 mánaða aldur sváfu lengur samfellt í einu við 4 mánaða aldur, samanborið við þau deildu herbergi.

Í sömu rannsókn kom fram að við 9 mánaða aldur sváfu þau sem voru flutt snemma lengri nótt, samanborið við þau sem voru flutt nær 9 mánaða aldri og styðstu nóttina sváfu þau sem deildu enn herbergi við 9 mánaða aldur. Við erum að tala um að meðaltali 45 mínútna mun á lengd nætur. Er það svo langur tími? Já, 45 mínútna lengri svefn getur skipt máli með tilliti til þess hversu vel úthvílt barnið vaknar OG hversu vel úthvílt foreldrið vaknar.

Við skulum nefnilega ekki gleyma svefni foreldra, ef barnið sefur betur sofa foreldrar betur (yfirleitt mamman, það er bara þannig) og við megum ekki vanmeta þörf foreldra fyrir svefn.

 Nú eruð þið kannski að hugsa „en AAP ráðleggur að deila herbergi til 6 mánaða aldurs“. Það sem kom í ljós í þessari rannsókn var að börn sem deildu herbergi við 4 mánaða aldur voru líklegri til þess að hafa hluti í rúminu sem samræmast ekki öruggu svefnumhverfi og foreldrar voru meira en 4x líklegri til þess að taka barnið uppí rúm til sín yfir nóttina og enda á að deila rúmi ef barnið deildi herbergi með þeim, samanborið við ef barnið var í eigin herbergi. En það er eitthvað sem AAP ræður sterklega frá þegar kemur að öruggu svefnumhverfi. Þannig að það gæti vegið upp á móti því að færa barnið svona snemma. Á endanum er það þó alltaf foreldranna að meta hvað hentar þeim og þeirra barni best út frá aðstæðum hverju sinni og þeirri þekkingu sem liggur fyrir.

 

En af hverju ætli börn sofi betur í eigin herbergi eftir 4-6 mánaða aldur?

Við vöknum öll á milli svefnhringja á næturnar, ef allt í umhverfinu er eins og það á að vera lögum við okkur kannski aðeins til í rúminu og förum aftur að sofa. Það sama á við um börn. Eftir 4-6 mánaða aldur fara börn að vera meira meðvituð um umhverfi sitt og það að vita af foreldrum í herberginu eða sjá þau getur valdið því að þau vakni alveg upp á milli svefnhringja í stað þess að rumska, laga sig til og fara aftur að sofa. Þetta getur gerst á 1-4 klst fresti, yfirleitt oftar þegar líða tekur á nóttina þar sem svefnhringirnir eru styttri á þeim tíma.

Aðstæður geta verið þannig að foreldrar hafa ekki tök á að færa barnið í eigið herbergi, að húsnæðið bjóði ekki upp á það. Ef staðan er þannig getur hjálpað að færa rúmið eins langt frá hjónarúminu og þið getið og staðsetja það þannig að barnið sjái ykkur ekki ef mögulegt er.

 

Hvernig er best að færa barnið í eigið herbergi? 

Þegar þú hefur ákveðið að færa barnið í eigið herbergi, hvernig er þá best að gera það?

Ef barnið þitt er um 6 mánaða gamalt, vant að sofa í rúminu sínu, sofnar frekar auðveldlega og sefur almennt vel er þessi breyting yfirleitt mjög auðveld fyrir barnið. Þú getur einfaldlega fært rúmið yfir, haft rútínuna fyrir svefninn eins og allt í svefnumhverfinu eins og barnið mun líklega fara sátt að sofa. Þetta er það sem ég gerði með Jón Sölva þegar hann var 6 mánaða og þetta virtist ekki hafa nein áhrif á hann.

Ef barnið er orðið þeim mun eldra eða þú metur það sem svo að þessi breyting muni hafa áhrif á barnið þitt geturðu notast við eftirfarandi skref:

 

    1. Leiktu við barnið inni í herberginu yfir daginn og búið til góðar minningar þar.
    2. Í 3 nætur fyrir flutninginn, gerðu rútínuna fyrir svefninn inni í herberginu en leggðu það áfram til svefns í hjónaherberginu. Aftur til að búa til góðar minningar í herberginu þannig að barnið tengi herbergið við góðar tilfinningar.
    3. Í 3 nætur fyrir flutninginn færirðu rúm barnsins fjær hjónarúminu ef það er möguleiki.
    4. Fyrir fjórðu nóttina færirðu rúmið í herbergi barnsins, gerir rútínuna fyrir svefninn eins og barnið er vant og hefur svefnumhverfið eins og barnið er vant (t.d. myrkur, white noise).

Þessi skref eru ekki nauðsynleg fyrir árangursríkan flutning, en ég myndi þó alltaf ráðleggja skref 1. Þú metur síðan hvað hentar þínu barni.

Þessi breyting getur valdið því að barnið fari að sofa betur og að þú vaknir ekki eins oft við rumsk í barninu. Ef barnið heldur áfram að vakna oft yfir nóttina og þér finnst þetta meira vesen heldur en að hafa barnið inni í herbergi hjá þér, geturðu hjálpað því að læra að sofa vel í eigin herbergi. Þá þarf að skoða svefn barnsins heildrænt – svefnumhverfið, dagrútínuna, hvernig barnið sofnar og hvað það þarf á næturnar til að sofna aftur eftir hvern svefnhring.

Ef þú vilt hjálp innihalda netnámskeiðin mín allar þær upplýsingar sem þú þarft til þess að hjálpa barninu þínu að sofa vel:

 

Nýburinn: 0-3 mánaða

Virðingarríki Svefnklúbburinn: 4-24 mán

Betri svefn: 2-4 ára

 

Hafa Samband