Dagmamma/leikskóli
May 06, 2024Dagmamma/leikskóli
Margir foreldrar hafa áhyggjur af því hvernig barnið muni sofa þegar það fer til dagmömmu eða á leikskóla eða hvernig þessar breytingar munu hafa áhrif á svefninn almennt.
Hvernig getur þú stutt barnið þitt í að sofa sem best í daggæslu og minnkað þau áhrif sem þessar breytingar gætu haft á svefn barnsins?
Skoðaðu svefnumhverfið
- Er myrkur þar sem börnin sofa?
- Er spilað white noise eða vögguvísur, svo börnin truflist síður af hvort öðru? (hið fyrr nefnda væri ákjósanlegra)
- Er hitastigið/umbúnaður barnsins viðeigandi?
- Er barnið með bangsan sinn, eða annað sem það er vant að sofa með heima.
- Ef barnið er vant að sofa í svefnpoka heima, er sniðugt að hafa einn á leikskólanum, passa bara að klæða barnið innanundir miðað við hitastig herbergisins. Ef það er ekki möguleiki getur barnið alveg vanist öðrum umbúnaði á leikskólanum.
Hvernig er dagskipulagið?
- Fara öll börn að sofa á sama tíma og er sami fjöldi af lúrum í boði fyrir alla? Eða tekur dagmamman/leikskólinn mið af þörfum hvers og eins?
- Það er þess virði að ræða hvaða rútína henti vel þínu barni og hvort rútínan sé svipuð hjá dagmömmunni/leikskólanum. Ef það munar miklu á tímasetningum getur verið að hægt sé að koma til móts við barnið að einhverju leyti, setja barnið fyrst eða síðast í lúr t.d. Ef barnið þarf enn 2 lúra en dagmamma/leikskóli býður almennt bara uppá einn, getur verið að barnið fái að leggja sig á leiðinni á róló eða því sé boðið út í vagn um morguninn þrátt fyrir að hin börnin séu vakandi inni.
- Er barninu gefið tækifæri til þess að sofna aftur ef það vaknar eftir stuttan lúr eða er það tekið strax fram, þrátt fyrir að það liggi hljóðlátt í rúminu?
- Eru þau tilbúin að vekja barnið eftir ákveðin tíma til þess að styðja við þá rútínu sem hentar barninu vel?
Er mikilvægt að dagskipulagið sé eins í daggæslu og heima?
Nei, það þarf ekki að vera eins. Þó að barnið sofi á öðruvísi í daggæslu en það var vant heima þarftu ekki að halda í það mynstur heima um helgar. Þú getur lagt það í lúra eins og það var vant heima um helgar. Börn geta vanist mismunandi dagskipulagi í daggæslunni og heima. Ef barnið þitt sefur t.d. styttri lúr eða einn lúr í daggæslu á meðan það er vant lengri lúr eða tveimur heima er í góðu lagi að leyfa tvo lúra heima eða lengri hádegislúr og leyfa barninu að vinna upp þreytuna eftir vikuna.
Ef barnið þitt sefur minna en það er vant í daggæslunni er mikilvægt að þú vinnir upp á móti því með því að leggja barnið fyrr að sofa um kvöldið. Jafnvel þó það sofi vel í daggæslunni getur verið að það þurfi að fara fyrr að sofa, því að það er mikil örvun fyrir barnið að vera á leikskóla, sérstaklega í byrjun og barnið þreyttara en það var þegar það var enn heima eða í sumarfríi.
Nokkur tips
- Ekki hafa of miklar væntingar um það hversu vel barnið þitt mun sofa hjá dagmömmunni/leikskólanum, sérstaklega í byrjun.
- Gerðu ráð fyrir um þriggja vikna aðlögunartíma þegar kemur að svefninum. Börn aðlagast misjafnlega hratt, fyrir sum börn getur þetta tekið tíma.
- Veittu barninu 100% athygli í dágóða stund fyrir háttinn. Þegar barnið byrjar hjá dagmömmu/leikskóla getur aðskilnaðarkvíði aukist og þá hjálpar að veita barninu góða athygli og nánd fyrir háttinn, þá er barnið líka ólíklegra til þess að vakna upp um nóttina í leit að henni.
- Ef barnið þitt er mjög ósátt á háttatíma, er líkleg ástæða þreyta eftir langan dag sem innihélt mikla virkni. Ef barnið þarf aukna aðstoð við að sofna geturðu boðið aukin stuðning og minnkað hann svo aftur hægt og rólega, reyndu að panika ekki og fara aftur í að svæfa það að fullu, heldur veita stuðning upp að því marki sem barnið þarf. Í þessum tilfellum gæti einnig hjálpað að bjóða háttatíma aðeins fyrr næsta kvöld.
- Það sama á við þegar barnið verður veikt, sem er líklegt að gerist á fyrstu vikunum. Það þarf þá líklega meiri svefn og aukinn stuðning, en aftur upp að því marki sem barnið þarfnast.
Ef þú vilt hjálpa barninu þínu að læra að sofa vel geta netnámskeiðin mín hjálpað þér: